Monday, March 28, 2005

Af páskum og sanntrúuðum

Mér er margt til lista lagt... Ég eyddi páskadegi í herbeginu mínu við að fínpússa eins og eitt stykki ritgerð; gaman að því. Í þá aumu klukkustund sem ég tók mér frí yfir páskadag, náði ég að gjöreyða fallega glansmynd af páskahátíðinni fyrir sanntrúuðum einfeldningi og þannig eyðileggja páskana fyrir viðkomandi. Þrefalt húrra fyrir því!
Þannig er mál með vexti að hún spænska vinkona mín bauð mér í spænskan páskabrönsj sem samanstóð af því sem kaninn kallar "french toast". Þetta var alveg prýðilegur matur og ein af þeim sem snæddu með okkur var hin Kaleforníska Mollí. Af eðlilegum ástæðum fórum við að ræða páskahátíðina og bunaði ég út úr mér ýmsum fróðleiksmolum um sannkristilegheit þeirrar hátíðar eins og að egg og kanínur séu frjósemistákn og þetta sé náttúrulega upprunalega gyðingleg hátíð sem eigi þar að auki djúpar rætur í heiðni, sólstöður á vori og þess háttar, og það sé alveg augljóst allt saman þar sem hátíðin fylgi gangi tunglsins... Til að gera langa sögu stutta, var hin sannkristna yngismær gráti næst blessunin og mér leið óttalega illa yfir því að vera að skemma svona fyrir henni... Segi það þó mér til varnar að það er náttúrulega gjörsamlega út í hött að fólk sem fer í kirkju í hverri viku og er þess fyrir utan í biblíufræðsluklúbbi, kunni ekki skil á uppruna trúarhátíða sinnar eigin kirkju! Og hana-nú... vona að ég sé ekki búin að skemma páskana fyrir ykkur hinum sem trúið á páskakanínuna og að eggið tákni steininn sem velt var frá gröfinni...gleðilega páska öllsömul!

Monday, March 21, 2005

Enn af íslenskri hámenningu

Íslendingar eru snillingar!
Ekki bara í matargerð, heldur erum við snillingar í Júróvisjón... Hann Jónsi "okkar" fór flatt á löndunum sem byrja á B í fyrra, það er Böltum og Balkanskagamönnum, tja, í rauninni bara öllum nema frændum okkar í Danmörku, Finnlandi, Mónakó, Noregi og Rússlandi. Ég stend við það sem ég sagði fyrir ári "öll hin löndin geta farið í ra...at". Ég ákvað að heimsækja bara þessi fimm lönd þaðan í frá hmmm...
Allavegana, þá hef ég verið að hlusta á nýja lagið okkar og verð að segja að þetta er að fara nett bakdyramegin inn hjá Bölkunum, skella inn ansi smörtu austurlensku bíti- algjör schnilld! Þið sem hafið ekki kynnt ykkur lagið, farið á slóðina http://www.eurovision.is/
Þar má hlusta á lagið í allri sinni dýrð. Ég mæli líka eindregið með spaugstofumönnum frá síðasta laugardegi, örn árna er óborganlegur sem júróstjarnan Vilma; þetta má sjá undir http://ruv.is/
Ég er farin að hlakka alveg hrikalega til Eurovisionkeppninnar. Veit það þykir ekki flott, en ég segi það og skrifa: Ég er Júróvisjónlúði og er stolt af því! Ahhh, best að skella Ketil Stokkan undir geislann, Rúmeú, Rúmeú, bla bla bla.

Thursday, March 17, 2005

Af íslenskri menningu

Þar sem ég sit og rembist við að kynna mér fílósófa- já ég er enn að... þá verður mér hugsað til Íslands. Þar er víst enn vetrarríki, árekstrar á heiðinni, frost og rok. Hér í Kaledóníu er sól og 14 stiga hiti, alveg hræðilegt að húka á bókó í svona veðri. Það er ekki bara frískandi ískaldur gusturinn, fjölskylda og vinir sem ég sakna í dag. Nei ó nei, það sem ég sakna mest í dag er Prins Póló. Það, þrátt fyrir að vera frá landi Bogdans Kowalsyk, er það alíslenskasta fyrirbæri sem ég get hugsað mér. Ég sé fyrir mér eldgamalt, grátt prins og fæ vatn í munninn..ummmm. Ekki það að ég sé síkjamsandi á þessu eðalsælgæti þegar ég er heima á ástkæra ylhýra, ekki frekar en flatkökum og hangikjöti, lifrarpylsum og blóðmör en þegar maður getur ekki fengið þetta góðgæti, langar manni mest í það. Kannski er það sem veldur að ég er loksins komin með skæp-át og get hringt í alla heima... Það kemur vissulega nokkur melankólía upp í aumum Íslendingi í útlöndum. Best að njóta hennar á meðan ég get, næstu vikur verða vægast sagt brjálaðar...eilíf ritgerðarskil og framsögur. Þá er bara að skella Bó vini mínum á fóninn, loka augunum og borða ímyndað Prins Póló... eða kannski ég skelli mér frekar á Kastalann og drekki grænan bjór í tilefni dags heilags Patreks...já ég ætla að gera það.
Slandjíva mates

Monday, March 14, 2005

Um galdurinn við að finna réttan lærustað

Ég er mikið búin að reyna að finna hentugan lærustað. Hef komist að því fullkeyptu að það er ekkert sniðugt að læra í herberginu mínu. Maður finnur sér alltaf eitthvað betra að gera, eins og til dæmis að taka til- enda er herbergið svo snurfusað að það er eiginlega bara heldur óhuggulegt og úr karakter fyrir mig. Svo er tölvuleikurinn Zuma alveg stórhættulegur og þegar 5 mínútna pásan er orðin hálftími, er kominn tími til að líta sér nær eða helst fjær og finna sér nýjan lærustað.
Ég hef upp á síðkastið verið að læra í St Kat's sem er læruhúsið mitt. Það hefur reyndar þann ókost að þar eru tölvur og prentari og hávaðinn frá sípikkandi Amríkönum með heimþrá gerir mig afar pirraða. Ég leitaði því á aðrar slóðir; það er ágætis læruaðstaða í "divinity" byggingunni en mér finnst bara svo mikil helgislepja fylgja því að þykjast vera guðfræðinemi og í sannleika sagt get ég ekki heldur lært í heimspekibyggingunni því þar eru allir alltaf að rökræða einhverja bölvaða vitleysu um Nítse og Kant og aðrar leiðindakúlur. Ég lauk því leitinni að hentugum lærustað á aðalbókasafninu, á efstu hæð úti í horni við hliðina á bókahillunni með fasistabókunum. Það koma ekki mjög margir þangað og enginn stelur borðinu mínu þegar ég fer í mat af því að ég skelli alltaf nokkrum fasistabókum á borðið "mitt", bókum með titlum á við "The New Fascists" og "The Truth about Al -Qaieda". Það dettur engum í hug að stela borðinu frá fólki sem geymir svoleiðis bækur á læruborðinu, tí hí hí. Það eina sem angrar mig á þessum nýja lærustað er að húsið er að sökkva og ég hugsa stundum um þá staðreynd þegar ég er að lesa eitthvað óspennandi efni...Það var víst nefnilega þannig að það var fenginn alveg rosalega frægur og merkilegur arkítekt til að hanna þetta ömurlega ljóta hús og hann klikkaði sem sagt á því að reikna inn þyngd bókanna...obbosí. En hvernig átti hann svo sem að vita það? Ég meina, arkítektabækur eru svo mikið léttmeti...
Það sem huggar mig er að ef húsið hrynur, er ég á efstu hæð og fæ bara þakið í hausinn...hmm
Hasta la vista beibís

Sunday, March 13, 2005

Af tólftu aldar náttúrufílósófusum

Þegar maður skrifar ritgerðir, kemst maður oft að ýmsu um sjálfan sig. Ég komst til dæmis að því að ég veit ekkert um tólftu öldina en á þó að heita að vera að skrifa ritgerð um náttúrufílósófusa og hvað þeir voru að bardúsa og hvers vegna þeir voru að vesenast í empírískum athugunum og svoleiðis. Þegar betur er athugað, veit ég ekkert um mannkynssöguna frá Kládíusi (frábærir sjónvarpsþættir) til svona sirka síðari heimstyrjaldarinnar. Ég veit enn minna um mannkynssöguna eftir síðari heimsstyrjöldina...nema smá hrafl um kalda stríðið. Ég veit ekki almennilega hvernig sagnfræðingur ég er, allavegana er ég ekki efni í stórsögufræðing, það er alveg ljóst. Stórsagan mín yrði einhvernveginn á þessa leið: Kládíus átti klikkaða konu og var hann drepinn...Atli Húnakonungur var mikið fyrir hesta og var með einhverja heimsvaldastefnu í Evrópu- minnir að hann hafi komið frá Rúmeníu- sem hét eitthvað allt annað þá...Það var nokkuð um þjóðflutninga á fyrri hluta miðalda og var íbúðaverð eflaust óstabílt í kjölfarið...Karlamagnús var við völd í Frakklandi og hafði böns af gaurum í vinnu hjá sér við að skrifa lög og svoleiðis...Hann átti nokkra syni sem erfðu ríkið eftir hans dag og þá fór allt í vesen og leiðindi út af skiptingu ríkisins...Menn fóru fljótlega að klæða sig í óþægilega járngalla(Henson var ekki fæddur) og berjast við heiðingja í fjarlægum löndum biblíunnar- síðan þá hefur allt verið í fokki á þeim slóðum...Um 1400 fóru Ítalir að færa út kvíarnar og auk þess að baka pitsur fóru þeir að mála myndir, aðallega af Jesú...Svo mætti þýskur gaur með fáránlega Oasis klippingu á svæðið og fór að vesenast í trúmálum og þá urðu hinir trúmálaveseningarnir foj og allir fóru að rífast en danski kóngurinn varð glaður og eignaðist kirkjujarðir- húrra fyrir honum...Svo varð iðnbylting og allir fóru að ferðast með gufuskipum og leggja undir sig fleiri lönd- sem voru þó í byggð, hmmm...
Allavegana, þá er ljóst að ég mun frekar stunda netta míkrósögu eftir þennan forsmekk.
Allt gerir maður í stað þess að lesa fleiri heimspekigreinar- ég segi bara: Guði sé lof fyrir að andsk... Sartre var ekki uppi á tólftu öld. Fjórfalt húrra fyrir því!

Monday, March 07, 2005

Af meðalstórum risaeðlum úr plasti

Ég er búin að ákveða að taka námið eins og hverja aðra vinnu og eiga mér agnarlítið (menningar)líf. Því skellti ég mér til Edinborgar um helgina til að teyga menninguna í mig . Ég fór sem sagt á safn og skoðaði meðalstórar plastrisaeðlur sem hreyfa sig- lyfta skottinu eða halanum eða rófunni- hmmm eða hvað þetta heitir nú og svo öskra þær líka! Þetta var afar áhugaverð sjón og ég sá mjög vel því flestir hinna menningarvitanna á sýningunni voru um 1.20 m á hæð. Afskaplega lágvaxnir þessir menningarlegu Skotar og alveg magnað hvað þeir eru unglegir... Ég gisti að sjálfsögðu í Edinborg, gekk um og drakk bjór með vinum. Núna rata ég á Grasmarkaðinn þar sem trónir stytta af Greyfriars Bobby eða Tobba- þessir hvuttar líta alveg eins út! Ég mun því ekki klikka á Grasmarkaðnum aftur. Afar skemmtilegur (aftöku)staður, þar var fólk gert höfðinu styttra áður fyrr, áhorfendum til mikillar gleði. Pöbbar sem bera nöfn eins og Síðasti dropinn bera þess merki að þetta hafi verið "happening" staður fyrir netta sadista... gaman að því. Svo þið sjáið gott fólk að ég get "gædað" ykkur aðeins ef þið bara kíkið við og ég veit hvar smart dragtir fást- ekki gleyma því!

Um gestakomur í Kaledóníu

Jæja, nú er ég búin að vera með gesti hjá mér í Kaledóníu. Kristín systir og Diljá litla frænka komu eins og vorboðinn ljúfi fljúgandi yfir hafið til mín (reyndar úr annari átt en heiðlóan). Ég komst að því mér til mikillar skelfingar að ég vissi bara ekkert um bæinn minn og hummaði krefjandi spurningar fram af mér. Þegar næstu gestir koma lofa ég að vera með allt á hreinu. Ég kynnti þær mæðgur raunar fyrir Kastalanum sem er öldungis prýðilegur hverfispöbb. Ég þekki verðlistann þar mjög vel...
Ég fór raunar líka með mæðgurnar í sveitaferð á herragarð, þar sem við uppifðum dýrð sköpunarverksins eða í öðrum orðum löbbuðum um og skoðuðum blóm... Ég held reyndar að hápunktur ferðalagsins hjá þeim stúlkukindum hafi verið Princes Street í Edinborg þar sem mikið var sjoppast. Ég keypti mér m.a.s. dragt, svona ung kona á uppleið, tja í það minnsta kona sem á dragt og getur nú verið smart á Kastalanum.
Svo fór ég með gestina í Sainsbury's sem ég kann ekki að þýða á íslenska tungu nema sem afar stórt Hagkaup, eða Hafkaup ef þannig er á það litið. Þær voru í essinu sínu í þeirri verslun og versluðu alls kyns óþarfa... Það hnussaði að sjálfsögðu í minni enda búin að vera allt of lengi í Nískupúkalandi og kaupi ekkert nema það sé rídjússd tú klír. Við gistum hjá prófessorafólkinu í fína húsinu þá um nóttina og var púrtvín í góðum gæðaflokki (held ég) sötrað í gríð og erg það kvöld og talað um voðalega fræðilega hluti sem ég er nú búin að gleyma hverjir voru- en þeir voru samt rosalega fræðilegir og merkilegir...
Nú er bara að ferðast meira, læra meira og drekka meira, nettur Ólíver Tvist fílingur í gangi- ég tvista til að gleyma og þar fram eftir götunum. Maður fær netta þynnku þegar ástvinirnir fara frá manni, snökt...

This page is powered by Blogger. Isn't yours?