Monday, March 07, 2005

Um gestakomur í Kaledóníu

Jæja, nú er ég búin að vera með gesti hjá mér í Kaledóníu. Kristín systir og Diljá litla frænka komu eins og vorboðinn ljúfi fljúgandi yfir hafið til mín (reyndar úr annari átt en heiðlóan). Ég komst að því mér til mikillar skelfingar að ég vissi bara ekkert um bæinn minn og hummaði krefjandi spurningar fram af mér. Þegar næstu gestir koma lofa ég að vera með allt á hreinu. Ég kynnti þær mæðgur raunar fyrir Kastalanum sem er öldungis prýðilegur hverfispöbb. Ég þekki verðlistann þar mjög vel...
Ég fór raunar líka með mæðgurnar í sveitaferð á herragarð, þar sem við uppifðum dýrð sköpunarverksins eða í öðrum orðum löbbuðum um og skoðuðum blóm... Ég held reyndar að hápunktur ferðalagsins hjá þeim stúlkukindum hafi verið Princes Street í Edinborg þar sem mikið var sjoppast. Ég keypti mér m.a.s. dragt, svona ung kona á uppleið, tja í það minnsta kona sem á dragt og getur nú verið smart á Kastalanum.
Svo fór ég með gestina í Sainsbury's sem ég kann ekki að þýða á íslenska tungu nema sem afar stórt Hagkaup, eða Hafkaup ef þannig er á það litið. Þær voru í essinu sínu í þeirri verslun og versluðu alls kyns óþarfa... Það hnussaði að sjálfsögðu í minni enda búin að vera allt of lengi í Nískupúkalandi og kaupi ekkert nema það sé rídjússd tú klír. Við gistum hjá prófessorafólkinu í fína húsinu þá um nóttina og var púrtvín í góðum gæðaflokki (held ég) sötrað í gríð og erg það kvöld og talað um voðalega fræðilega hluti sem ég er nú búin að gleyma hverjir voru- en þeir voru samt rosalega fræðilegir og merkilegir...
Nú er bara að ferðast meira, læra meira og drekka meira, nettur Ólíver Tvist fílingur í gangi- ég tvista til að gleyma og þar fram eftir götunum. Maður fær netta þynnku þegar ástvinirnir fara frá manni, snökt...

Comments: Post a Comment



<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?