Wednesday, February 23, 2005

Afhjúpun menningar-ó-vita?

Ja hérna hér...
Ég er nýkomin frá hinni mætu borg borganna Flórens, þar sem menn baka pítsur í óða önn og púsla saman ravíólí. Við fyrstu kynni heillaði borgin ekki, mér fannst hún of hávær- það gerir fáránleg ofnotkun Flórmanna á vélknúnum vespum- og auk þess liggur Ítölum hátt rómur (eins og Valgeir sagði um mig um árið). Ítalir tala hver í kapp við annan og sýnist mér sem enginn þeirra vilji verða síðastur til að tala-þannig að effektinn er eins og fuglabjarg á varptíma...
Annar hlutur sem mér líkaði ekki allskostar við Flórens, var hvað borgin er illa lyktandi. Það er eins og það séu risa risa göt í klóakinu sums staðar- maður fékk því alvöru miðaldafíling í miðaldaborginni, með miðaldalykt eins og úr miðaldakamri, sem sagt, miðaldaviðbjóður...
Einnig eru Flórmenn afskaplega miklir dýravinir og á annar hver maður kjölturakka eða jafnvel varðhund. Þess vegna er allt vaðandi í hundaskít alls staðar. Eiginlega mætti segja að fyrstu dagana hafi ég ekki séð Flórens og hafi því ekki getað verið dómbær á fegurð hennar, vegna þess að ég var svo upptekin við að horfa á gangstéttina til að stíga ekki í hundaskítshrúgu...oj oj oj.
Samt sem áður er Flórens borg sem vex með hverri mínútu sem líður. Hún breyttist í það minnsta úr illa lyktandi subbubúllu í svaka fallega menningarborg á einum 2 dögum í mínum huga. Ég skoðaði Uffizi safnið og dáðist að Jesúmyndunum milljón, einnig fór ég út af örkinni og skoðaði nokkrar kirkjur. Ég verð að viðurkenna að ég var voða upprifin af endurreisnardýrðinni á Uffizi sirka fyrsta 1-1 1/2 klukkutímann. Svo bara fór gyllingin á dýrðarverkunum að dofna og ég labbaði hratt og geispandi í gegnum síðustu salina án þess að huga að stórkostlegum stílbrögðum Ghirlandaios eða hve frábærlega Rembrandt beitti skuggum í listsköpuninni... Mig langaði bara að setjast einhversstaðar niður og fá mér sígó og kók og fletta í gegnum glanstímaritið Glamour. Ég held ég sé ekkert rosalega menningarleg eftir allt saman. Þetta er að sjálfsögðu gífurlegt áfall fyrir mig. Ég hef alltaf trúað því að ég sé menningarviti af guðs náðs og hafi með sanni getað sagt að Íbsen hafi verið rosalega gott skáld... En nei, Flórens afhjúpaði loddarann, gríman er fallin. Þetta er meira að segja svo slæmt tilfelli að ég komst að því að "menningarvitar" fara beinlínis í pirrurnar á mér. Ferðafélagi minn fór í um 10 kirkjur á dag og sagði alltaf; ú, það er víst frægt málverk í þessari kirkju- best að arka yfir holt og hæðir til að berja það augum...Ég hugsaði bara; Guð minn góður- skoðaðu það í bók- þar er engin biðröð!
Jæja, pása núna... lærutími
Ciao Amici

Sunday, February 13, 2005

Frásagnir af dansiböllum og öðrum hrakförum

Mér er illt í hnéinu. Ég tók ansi öflugar sveiflur á dansiballinu góða. Allir voru mættir í sínu fínasta pússi úr mínu húsi en BA nemarnir frá Sally's komu í dverga og Mjallhvítargöllum. Ballið var hin besta skemmtan, 90 kampavínsflöskur innbyrtar og svo var víst ís í eftirmat en þá var ég í öðru húsi að slúðra um Kamillu og Kalla... Ég mæli eindregið með dansiböllum á borð við þetta. Fyrst góð djasshljómsveit, svo skosk hoppudanshljómsveit og að lokum plötusnúður sem spilaði dúndurslagara á borð við KFUM (YMCA). Svona fjör kallar á meira fjör og var mér boðið í eftirgilli hjá henni Ciara (Kíra) sem er írsk fyllibytta. Afar vinaleg stúlka sem drekkur mikið og gerir handahlaup og dansar uppi á borði þegar hún er orðin vel full. Ætli maður þurfi ekki að vera nettgeðveikur til að vera í mastersnámi í tölfræði? Kíra hélt þetta líka fína teiti og vakti alla nágranna sína með því að garga Cranberrieslög og bjóða öllum að hoppa á rúminu sínu... Kíra greyið endaði eins og svo oft áður "sofandi" á stól og bárum við hana upp stigann og inn í herbergið hennar.
Eins og gefur að skilja, þá var fólkið frekar gegnsætt daginn eftir og alveg merkilegt hvað margir voru að sniglast í kringum skyndibitabúlluna PMS (PM's). Chips n' cheese heitir rétturinn sem heillar flesta og voru kókflöskurnar í share size stærðarflokki. Alltaf svolítið gaman að þessari þynnku...
10/4

Friday, February 11, 2005

Um dýrahald í St Andrews

Ég er komin með gæludýr. Það er svartþrösturinn Rassmus. Hann býr í runna hér fyrir utan Gannochy og mætir galvaskur í eldhúsið í hverju hádegi. Ég gef honum Teskóbrauð út á gluggasyllu og áðan sótti hann í sig veðrið og sat á eldhúsborðinu og beið eftir sínu daglega brauði. Öflugur fýr hann Rassmus... Kampusfasistarnir leyfa ekki einu sinni gullfiskahald í húsinu en Rassmus lætur Manninn ekki halda aftur af sér. Rassmus var skírður eftir dönskum heimspekinema sem er mjög duglegur að drekka viskí. Einkennilegt fólk Danir. Það býr hér annar Dani sem heitir því þjóðlega nafni Jonny. Hann er einnig í heimspekinni og talar undurfurðulega með léttu stami ofan í danska hreiminn. Jonny er líka iðinn við kolann þegar kemur að drykkju og líkjast vínbirgðir eins kvölds hjá honum einna helst heilsársbirgðum hjá Ungmennafélagi að norðan...
Annars ríkir mikil eftirvænting í húsinu í dag, það er hið árlega holl boll í kvöld. Þá mæta allir í Gannochy og í nágrannaríkinu St Salvator's Hall í sínu fínasta pússi yfir í tónleikahöllina hér við hliðina og svo er dansað fram á nótt. Þetta verður eflaust hin besta skemmtun þó það sé þema, Disney, sem enginn ætlar að fara eftir. Snótirnar hér í kofanum eru í óða önn að verða sér úti um bumbubananaríur og sléttujárn en mín ætlar bara að leyfa mallanum að falla frjálst og vera algjör krullulumma! Ég hef raunar nettar áhyggjur af þeirri hefð að dansa keilí sem er svona skoskur hoppudans... Er að spá í að skella mér á klóið og vera þar á meðan á þeim ósköpum stendur. Veit ekki alveg hvernig það leggst í sálartetrið mitt að verða vitni að fullum nærbuxnalausum strákum í pilsum að hoppa hæð sína. Og þó, jú ég ætla að horfa, hjé hjé.
Later

Thursday, February 10, 2005

Enn um undur tækninnar

Nú er ég búin að brenna allar brýr að baki mér...keypti öldungis prýðilegan Canon súper dúper prentara í dag. Héðan í frá get ég prentað alla þá vitleysu sem mér sýnist. Mér finnst ég vera algjör tæknimógúll, það er, eftir að ég finn út hvar maður á að opna pappakassann, hmmm. Svo fylgir þessi líka fíni geisladiskur sem segir manni hvernig maður á að athafna sig með prentvélina. Það er af sem áður var þegar landinn teygði út skinn af dauðum beljum til að prenta á. Svo er ég að fara á fyrirlestur á eftir sem ber titilinn Þe sæborg örbaníseitjón, örugglega mjög tæknilegt líka.
Ahh, best að plögga fótanuddtækið, prumpa í eina sóda stream og kveikja á litla ljósálfinum svo ég sjái til á meðan ég blogga og svo ætla ég að syngja Finnland, Finnland, Finnland.
Grrrr, tölvan mín sagði mér að ég ætti bara ex mörg bæt eftir á minninu eftir að ég skellti prentvélinni í gang. Hvurslax er þetta eiginlega? Ég ætla að tala við hann Nelson (flotaforingja) sem býr hér í Austur Berlín og er svona portúgalskur tölvunjörður og biðja hann að fremja tölvubrögð til að laga þetta. Annars hendi ég bara BA ritgerðinni minni út eða eitthvað, hún var hundleiðinleg hvort eð er og ég og aðrir betur settir án hennar...beiskja, beiskja...fjárans tækni- burt með hana! Eins og Kató gamli sagði: Að lokum legg ég til að tæknin verði lögð í eyði!

Úff, þetta var hræðilegt. Ég þurfti að velja á milli þess að henda fótósjoppinu, BA ritgerðinni eða Abba út úr tölvunni minni. Því miður urðu sænsku súperstjörnurnar fyrir valinu. No more Waterloo í minni Dell-vél...snökt. Abba- Thank you for the music!
Greetings


Wednesday, February 09, 2005

Hin þungu spor tækninnar

Nú er ég búin að koma því í kring að fólk getur sett fram skoðanir sínar. Ef Bó Hall villist hér inn, þá vil ég bara segja: Þú rokkar maður! Ég vil fá Sóley 2 sem næsta Júróvisjónlag.
Af hverju er tæknin svona erfið? Af hverju er ekki bara takki sem á stendur setja inn mynd og svo framvegis? Hvers eigum við tæknilega "challenged" fólkið að gjalda? Ég veit að tölvufólk er kallað nördar og þaðan af verra af okkur hinum, en viljið þið ekki fjölga í hópnum? Af hverju? Vei, ó vei og ó mig auma.
Nú þegar Gettu betur þátturinn er búinn þá velti ég því einnig fyrir mér hve illa stödd vor glaða æska er...að passa á Idi Amin, ussu suss. Logi Bergmann er nú samt alltaf gleðigjafi og samspil hans og Stebba Páls, svona ástar/haturssamband er funheitt. Ég hef bara ekki séð svona spennu síðan Shelley Long og Ted Danson voru að sverma fyrir hvort öðru í Staupasteini. Sem minnir mig á það að ég væri sko alveg til í að sjá spin-off þátt með Cliff Clavin; hann var alltaf uppáhaldið mitt, með useless knowledge og svo er hann umhverfisvænn maður í dag sem talar inn á teiknimyndir. O, ég sakna hans og allra póstbera yfirleitt, því þeir færa mér bréfin og póstkortin sem þið eruð ekki að senda mér; þeir sem fá nagandi samviskubit af því að lesa þetta ættu að skrifa mér bréf núna! Jæja, best að kíkja á aðframkomnar húsmæður núna. Kaninn gerir úthverfalíf svo framandi- allir rosa fallegir að læsa sig úti á Evuklæðunum og plotta heimsyfirráð. Ekki skemmir heldur að leikararnir voru valdir eftir útliti ekki hæfileikum. Þrefalt húrra fyrir Könum og húsmæðrum!
Signing off


Síðasta vígið fallið?

Ja hérna
Allt dettur manni nú í hug. Björkinmín bara komin í bloggpyttinn. Hvað tekur við næst? Litli ljósálfurinn, fótanuddtæki, soda-stream, beta max vídeo...
Það skal tekið fram að ég hefi tekið þessa blogg-kvörðun vegna þess að ég er ógeðslega löt að skrifa bréf. Ég er sjálfsagt einnig að grafa mína eigin gröf með þessu uppátæki því að nú hætta eflaust þessir fáu sem hafa drattast til að skrifa mér...að skrifa mér. Ætli ég komi mér ekki upp svörtum lista svona a la McCarthy, þar sem ég nafngreini þá sem ekki hafa skrifað hjé hjé hjé. Viðkomandi verður síðan fleygt fyrir ljónin þegar ég sný aftur heim á ástkæra ylhýra...það er eftir að ég fæ leyfi til að flytja inn ljón og byggja hringleikahús fyrir gjörninginn. Ætli Guðni Ágústsson vilji ekki fella þessi sagnfræðilegu vinnubrögð undir túrisma og heimaræktun?
Þessi bloggsíða verður eflaust afar fátækleg af tæknibrellum þar sem ég er algjör tölvulúði og kann engin skil á tölvubrellum þeim sem beitt er á alnetinu. Ég mun samt gera mitt besta á meðan ég sit hér í landi Pikta og kjamsa á kíssji úr Teskó-bragðast vel með ógnarpipari sem ég festi kaup á í annari verslun hér í bæ, Seifvei-ætli það þýði ekki vei Seifi eða eitthvað svoleiðis? Bíð spennt eftir Gettu betur á netinu í kvöld- Gó Gufan! Óver end át

This page is powered by Blogger. Isn't yours?