Monday, March 14, 2005

Um galdurinn við að finna réttan lærustað

Ég er mikið búin að reyna að finna hentugan lærustað. Hef komist að því fullkeyptu að það er ekkert sniðugt að læra í herberginu mínu. Maður finnur sér alltaf eitthvað betra að gera, eins og til dæmis að taka til- enda er herbergið svo snurfusað að það er eiginlega bara heldur óhuggulegt og úr karakter fyrir mig. Svo er tölvuleikurinn Zuma alveg stórhættulegur og þegar 5 mínútna pásan er orðin hálftími, er kominn tími til að líta sér nær eða helst fjær og finna sér nýjan lærustað.
Ég hef upp á síðkastið verið að læra í St Kat's sem er læruhúsið mitt. Það hefur reyndar þann ókost að þar eru tölvur og prentari og hávaðinn frá sípikkandi Amríkönum með heimþrá gerir mig afar pirraða. Ég leitaði því á aðrar slóðir; það er ágætis læruaðstaða í "divinity" byggingunni en mér finnst bara svo mikil helgislepja fylgja því að þykjast vera guðfræðinemi og í sannleika sagt get ég ekki heldur lært í heimspekibyggingunni því þar eru allir alltaf að rökræða einhverja bölvaða vitleysu um Nítse og Kant og aðrar leiðindakúlur. Ég lauk því leitinni að hentugum lærustað á aðalbókasafninu, á efstu hæð úti í horni við hliðina á bókahillunni með fasistabókunum. Það koma ekki mjög margir þangað og enginn stelur borðinu mínu þegar ég fer í mat af því að ég skelli alltaf nokkrum fasistabókum á borðið "mitt", bókum með titlum á við "The New Fascists" og "The Truth about Al -Qaieda". Það dettur engum í hug að stela borðinu frá fólki sem geymir svoleiðis bækur á læruborðinu, tí hí hí. Það eina sem angrar mig á þessum nýja lærustað er að húsið er að sökkva og ég hugsa stundum um þá staðreynd þegar ég er að lesa eitthvað óspennandi efni...Það var víst nefnilega þannig að það var fenginn alveg rosalega frægur og merkilegur arkítekt til að hanna þetta ömurlega ljóta hús og hann klikkaði sem sagt á því að reikna inn þyngd bókanna...obbosí. En hvernig átti hann svo sem að vita það? Ég meina, arkítektabækur eru svo mikið léttmeti...
Það sem huggar mig er að ef húsið hrynur, er ég á efstu hæð og fæ bara þakið í hausinn...hmm
Hasta la vista beibís

Comments: Post a Comment



<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?