Wednesday, February 23, 2005

Afhjúpun menningar-ó-vita?

Ja hérna hér...
Ég er nýkomin frá hinni mætu borg borganna Flórens, þar sem menn baka pítsur í óða önn og púsla saman ravíólí. Við fyrstu kynni heillaði borgin ekki, mér fannst hún of hávær- það gerir fáránleg ofnotkun Flórmanna á vélknúnum vespum- og auk þess liggur Ítölum hátt rómur (eins og Valgeir sagði um mig um árið). Ítalir tala hver í kapp við annan og sýnist mér sem enginn þeirra vilji verða síðastur til að tala-þannig að effektinn er eins og fuglabjarg á varptíma...
Annar hlutur sem mér líkaði ekki allskostar við Flórens, var hvað borgin er illa lyktandi. Það er eins og það séu risa risa göt í klóakinu sums staðar- maður fékk því alvöru miðaldafíling í miðaldaborginni, með miðaldalykt eins og úr miðaldakamri, sem sagt, miðaldaviðbjóður...
Einnig eru Flórmenn afskaplega miklir dýravinir og á annar hver maður kjölturakka eða jafnvel varðhund. Þess vegna er allt vaðandi í hundaskít alls staðar. Eiginlega mætti segja að fyrstu dagana hafi ég ekki séð Flórens og hafi því ekki getað verið dómbær á fegurð hennar, vegna þess að ég var svo upptekin við að horfa á gangstéttina til að stíga ekki í hundaskítshrúgu...oj oj oj.
Samt sem áður er Flórens borg sem vex með hverri mínútu sem líður. Hún breyttist í það minnsta úr illa lyktandi subbubúllu í svaka fallega menningarborg á einum 2 dögum í mínum huga. Ég skoðaði Uffizi safnið og dáðist að Jesúmyndunum milljón, einnig fór ég út af örkinni og skoðaði nokkrar kirkjur. Ég verð að viðurkenna að ég var voða upprifin af endurreisnardýrðinni á Uffizi sirka fyrsta 1-1 1/2 klukkutímann. Svo bara fór gyllingin á dýrðarverkunum að dofna og ég labbaði hratt og geispandi í gegnum síðustu salina án þess að huga að stórkostlegum stílbrögðum Ghirlandaios eða hve frábærlega Rembrandt beitti skuggum í listsköpuninni... Mig langaði bara að setjast einhversstaðar niður og fá mér sígó og kók og fletta í gegnum glanstímaritið Glamour. Ég held ég sé ekkert rosalega menningarleg eftir allt saman. Þetta er að sjálfsögðu gífurlegt áfall fyrir mig. Ég hef alltaf trúað því að ég sé menningarviti af guðs náðs og hafi með sanni getað sagt að Íbsen hafi verið rosalega gott skáld... En nei, Flórens afhjúpaði loddarann, gríman er fallin. Þetta er meira að segja svo slæmt tilfelli að ég komst að því að "menningarvitar" fara beinlínis í pirrurnar á mér. Ferðafélagi minn fór í um 10 kirkjur á dag og sagði alltaf; ú, það er víst frægt málverk í þessari kirkju- best að arka yfir holt og hæðir til að berja það augum...Ég hugsaði bara; Guð minn góður- skoðaðu það í bók- þar er engin biðröð!
Jæja, pása núna... lærutími
Ciao Amici

Comments:
Hmm. Menning er líklega ofmetin, í of miklu magni. Gylling er bara gylling og kirkja er bara kirkja. Sammála með klóaklyktina af Ítalíu - þegar ég var í Venice í sumar þá fannst mér mikill klóaksdaunn yfir öllu. Einnig var allt of mikið af fólki (read: túristum) sem gerði það að verkum að þetta var ekki eins spennandi og ég sleppti því ma annars að kíkja í St. Ágústusuar kirkjuna. Einnig var allt allt of dýrt þarna (bjór í sjoppu á ca. 300kr) minnti mig á bananalýðveldið Ísland. Hey nú heilar þú á mig! Best að tala við þig...
 
Post a Comment



<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?