Monday, May 08, 2006
Icelandic Politics: Part 1
I refuse to pester the non-Icelandic readers with the rantings on Ice-Pol. This entry will therefore be in Icelandic.
Stefán Jón Hafstein á fundi um Reykjavíkurkosningar og umhverfisvernd: "Ætlið þið sem sagt að vinna með umhverfisbófunum?"--Hér spyr hann fulltrúa Frjálslyndra og óháðra og umhverfisbófarnir eru Sjálfstæðisflokkurinn. Nú segi ég fávís kvensniftin með áhuga á umhverfisvernd: Stefán minn, þú hefur nú að mörgu leyti staðið vaktina í umhverfismálum fyrir hönd hins alræmda R-lista sem nú er aftur orðinn þrískiptur. Það er því gott og blessað að kalla D-menn umhverfisbófa en ég bara man ekki betur en þitt fólk séu nettir ef ekki alræmdir umhverfisbófar líka. Sjálf Ingibjörg Sólrún kaus með Kárahnjúkavirkjun á sínum tíma í borgarstjórn. Vissulega er frúin sú heillum horfin í höfuðborginni og því hægt að segja að R-listinn sé dauður og nýr Dagur sé runninn upp hjá ykkur Sandfyllingarmönnum, ég meina Samfylkingarmönnum. Hinsvegar, vil ég minna á að nýi leiðtoginn, skæra stjarnan og hjartaknúsarinn Dagur B. er svo mikill náttúruvinur að hann sat hjá í þessu mikilvæga máli.
Já, hver er eiginlega umhverfisbófinn? Kannski er umhverfisvernd í hugum S-manna í höfuðborginni bara að göturnar séu spúlaðar reglulega í 101 svo að Dagur og allir hinir grislingarnir geti spókað sig sólbrúnir og sællegir á kaffihúsum í atkvæðaleit án þess að anda að sér svifryki frá tættum nagladekkjuðum götunum.
Síðast en ekki síst verð ég bara að lýsa yfir undrun minni vegna framferðis og málflutnings frambjóðenda gamla R-listans. Þegar þetta lið kemur fram opinberlega og lepur ofan í kjósendur falleg loforð um hvað allt verði frábært í borginni þegar þeir/þau komist í meirihluta--já, þá finn ég gallið magnast í iðrum mínum og ég veit ekki hvort ég á að kyngja gubbinu eða hrækja því út (finn ekki nógu stóra fötu fyrir klígjuna og neyðist víst til að kyngja). R-listinn, hvort sem hann samanstendur af Alþýðubandalagi og Alþýðuflokki eða Samfylkingu, Framsókn og Vinstri grænum hefur verið við völd í borginni síðastliðin tólf ár. Hvernig dettur pótintátum þessara flokka í hug að lofa breytingum núna? Hver trúir því eiginlega að allt verði lagað? Allir þessir flokkar nota sömu afsökunina: Við neyddumst til að samþykkja allskonar bull frá hinum til að halda völdum... Hvers konar völd eru það þegar hvert klúðrið rekur annað og menn svíkja sína eigin samvisku trekk í trekk? Ég er að minnsta kosti búin að fá upp í kok af þessari samsuðu svikinna loforða. Ég gaf R-listanum atkvæði mitt einu sinni og svo aldrei meir.
Mér finnst að lokum alveg stórmerkilegt að VG-liðar séu búnir að fjöldaframleiða barmmerkið "Aldrei kaus ég framsókn". Ég verð að gera ráð fyrir því að allir vinstrimennirnir sem ganga stoltir um með þessa nælu hafi þannig aldrei kosið R-listann heldur. Ég á við, framsókn var jú hluti af R-listasamsuðunni og ég kaus hana einu sinni. Það þýðir að ég hef kosið framsókn og því get ég ekki gengið með þessa nælu í jakkanum. Ég verð því að gera ráð fyrir að vinstrimennirnir með næluna hafi annað hvort: a) Kosið samsuðuna og séu því nú bara að plata b) Skilað auðu í þeim kosningum sem R-listinn bauð fram c) Hafi kosið Sjálfstæðisflokkinn.
Lifi íslensk stjórnmál!